Allt um sund, sundlaugar, jarðvarmaböð og sjóböð

Sund, í hvaða formi sem er, hefur ávallt átt sinn sérstaka stall á Íslandi. Strax til forna nýttu íslendingar sér jarðvarmann og um allt land þar sem má finna minjar um fornar laugar. Stundum er aðeins um minjar að ræða, en fjórar laugar eru enn nothæfar til þessa dags. Snorralaug í Reykholti er ein þeirra, en hún er talin hafa verið hlaðin á 13. öld.

Það er kannski jarðvarmanum að þakka, kannski vegna þeirra staðreyndar að Ísland er eyja, kannski vegna þess að það þarf að nýta allt þetta fína heita vatn í eitthvað, en sundlaugarnar, sjósundið, jarðböðin og heitapottamenning okkar hér á landi verður að teljast nokkuð einstök.

Það er ekki furða hvað útlendingar eru gapandi yfir því að það skiptir ekki máli hvaða útkjálka, einskismannsland eða öræfi eru heimsótt, allstaðar er aðeins stuttur göngutúr í næstu sundlaug, náttúrulaug, gufu eða heitan pott.

Þessi síða vill ná því markmiði að gera sem besta grein fyrir sundmenningu landans, veita upplýsingar um nýjar laugar, jarðböð, eða sjósundstaði, ásamt því að birta fróðleik, fréttir og skemmtun um flest sem viðkemur sundi og sundmenningu.

Hér er hægt að finna á einum stað margskonar fróðleik sem tengist sundiðkun og sundmenningu. Reynt er að einblína á Suðurland, en einnig verða teknir fyrir nýjustu jarðvarmaböðin sem hafa opnað um allt land.

Það er engu líkt og alltaf jafn gaman að prófa nýja sundlaug á nýjum stað. Sundlaugar á Íslandi slaga hátt upp í 70 stykki, þar af eru um 20 á Höfuðborgarsvæðinu. Það er því af nógu að taka og mikið verk framundan fyrir hvern þann sem setur sér það markmið að heimsækja þær allar.