Æfir barnið þitt sund?

Skráningar standa nú yfir hjá hinum ýmsu íþróttafélögum sem bjóða upp á íþróttaæfingar fyrir börn á skólaaldri. Það er alvitað að lykillinn að góðri heilsu felst í góðum svefni, réttu mataræði og nægri hreyfingu. Börnin okkar eru ekki undanskilin hreyfingu og góð hugmynd er að skrá þau í einhverskonar íþróttir eftir skóla. Það eru margar góðar ástæður fyrir því að skrá börn í sundæfingar.

Sundkennsla er góður undirbúningur fyrir lífið og góð hreyfing sem barnið nýtur góðs af alla ævi ef rétt er staðið að kennslunni í byrjun. Gerð er krafa til skóla um að börn fái 2 tíma í íþróttum og 1 tíma í sundkennslu hið minnsta á hverri viku skólaárs. Raunin er þó sú að 1 tími fyrir sundkennslu á viku er heldur lítið til að fara djúpt í tækni og annað. 1 tími á viku nær því svo aldrei að verða meira er 15 – 20 mínútur af raunverulegri kennslu þar sem langur tími fer í fyrir krakkana að koma sér í laugina eftir sturtu og svo þarf að hleypa tímanlega upp úr lauginni svo þau verði ekki of sein í næsta tíma. Öryggi í vatni er einnig mikilvægt þegar kemur að sumarfríum til útlanda og á sólarstrendur.

Sund er hreyfing sem hægt er að stunda alla ævi og lítið sem ekkert er um álagsmeiðsl, þar sem hreyfingin í vatninu er mjúk og ekkert högg eða álag myndast á vöðva eða bein. Sund er einnig æfing þar sem allir vöðvar líkamans fá einhverja þjálfun. Sund er fullkomin heilsurækt þar sem búnaðurinn er alls ekki dýr.

Sund eykur liðleika þar sem hreyfingin er mjúk og er stunduð í 27-30°C heitu vatni. Sundið teygir vel á vöðvunum og þeir ná góðri slökun. Líkamsstaðan verður einnig betri, þar sem sundið styrkir liðamót og teygir úr hryggjarsúlunni. Sumir segja að sund sé ein besta íþróttin til að koma í veg fyrir bakvandamál síðar meir.