Bestu sundlaugarnar í Reykjavík

Álftaneslaug

Er nýleg viðbót við sundlaugaflóru landsmanna og eina laugin (enn sem komið er) sem býður upp á öldulaug. Þar má líka finna stærstu vatnsrennibraut landsins. Hún er 10 metra há og 80 metra löng. Að auki má nefna 25 metra útilaug, tvo heita potta, buslulaug og gufuböð.

Árbæjarlaug

Var formlega tekin í notkun árið 1994 og þótti virkilega vel heppnuð sundlaug, með fyrsta flokks aðstöðu. Þar er að finna 25 metra útilaug, 10 metra innilaug, 11 metra vaðlaug, og fjóra heita potta sem hafa verið gefin lýsandi nöfn á borð við: Iða, Volga, Víti og Nuddi. Þar er líka eimbað fyrir bæði kyn, tveir strandblaksvellir, um 5 metra há vatnsrennibraut, lítil rennibraut, flotleiktæki og kröftugar vatnsbunur af ýmsum gerðum.

Laugardalslaug

Er ein stærsta sundlaug landsins, með 50 metra útilaug og 30 metra barnalaug, 86 metra vatnsrennibraut, úrval heitra og kaldra potta, gufubaða og eimbaða. Þar er einnig að finna sólbaðsaðstöðu, æfingaaðstöðu fyrir strandblak, nýuppgerða útiklefa og ótalmargt fleira.

Sundlaugin er staðsett í hjarta Laugardalsins, þar sem er að finna úrval hjóla og gönguleiða og fyrsta flokks íþróttaaðstöðu.

Seltjarnaneslaug

Þó laugin sé ekki strangt til tekið í Reykjavík fær hún samt að fljóta með hér vegna sérstöðu sinnar. Líkt og Bláa lónið er vatnið sem notað er í laugina úr borholu í nágrenninu, en vatnið þaðan er mjög ríkt af steinefnum. Margir halda því fram að vatnið þurrki húðina ekki jafn mikið og annað sundlaugarvatn, og fari því betur með húðina.

Seltjarnarneslaug býður upp á bæði barnalaug og almenna útilaug, 4 heita potta, eimbað og útiklefa.

Sundhöll Reykjavíkur

Er ein af elstu sundlaugum landsins, teiknuð af einum frægasta arkitekt Íslands á þeim tíma, Guðjóni Samúelssyni og tekin í notkun árið 1937. Aðallaugin er 25 metra innilaug og mesta dýpi er 4 metrar. Þar er vinsælt að nýta sér stökkbrettin tvö.

Árið 2018 var svo tekin í notkun glæný viðbygging, ásamt nýrri 25 metra útilaug, vaðlaug, köldum potti og þriðja heita pottinum.