Hákarlaveisla í bíó

Þann 17. ágúst 2018, var frumsýnd í Sambíóunum mynd sem allir sjósundsaðdáendur og sundgarpar mega ekki missa af. The Meg er hasar, vísindaskáldskapur og hryllingur í anda hinna ódauðlegu Jaws mynda og ættu að vera hin besta skemmtun. Myndin fjallar um árás 20 metra hákarlsferlíkis og björgunaraðgerðir fólks sem er fast í neðansjávarrannsóknarstöð.

Það er einmitt góð ástæða fyrir sundmenn að skella sér á svona myndir, það er alltaf svo gott að geta hughreyst sig með því að ekki aðeins eru líkurnar á því að verða einhvern tíma fyrir árás hákarls stjarnfræðilega litlar sem engar, þó svo að sjósund sé stundað, það ætti líka að hjálpa svolítið til að vera góður sundkappi og vanur svamli í söltum sjó.

Myndin skartar úrvali leikara, þar á meðal Jason Statham og okkar ástsæli leikari, Ólafur Darri fer einnig á kostum í litlu hlutverki. Eins og fyrr sagði fjallar myndin um vísindamenn sem finna ókannað hafsvæði fullt af óþekktum sjávardýrum, þar á meðal Megalodon, forsögulegan forvera hákarla nútímans sem talinn var útdauður fyrir milljónum ára. Megalodon var talinn geta orðið allt að 20 metra langur með 20 sentimetra tennur. Ekkert sérstaklega gaman að verða á vegi eins slíks. Og nú er stóra spurningin: Nær persóna Jason Statham að sigrast á ótta sínum við hákarla eftir að hafa naumlega lifað af árás eins slíks áður, og bjarga vísindamönnunum?

Myndin fær sæmilega dóma, bæði hjá íslenskum og erlendum gagnrýnendum. Það sem einna helst fer fyrir brjóstið á aðdáendum mynda á borð við Jaws og Deep Blue Sea um þessa ógnvalda hafsins, er blóðleysið, enda er The Meg leyfð fyrir 12 ára og eldri. Það helsta sem sett er út á er að leikstjórinn virðist ekki hafa getað ákveðið sig, hvort myndin ætti að vera alvöru hryllingsmynd eða spennublandið grín, og það sést svolítið í frammistöðu leikaranna. En engu að síður er þetta hin fínasta afþreying og tæknibrellur eru vel gerðar.

Reply