Hundar í sjósundi

Fellibylurinn Florence hefur valdið mannskaða, miklu eignatjóni og umhverfisspjöllum, þó vindurinn sé að mestu genginn niður. Erfiðara hefur verið að losna við flóðin og vatnselginn, sem honum fylgdi.

Björgunarmenn náðu nýverið að bjarga 6 hundum úr læstu hundabúri utandyra, eftir að eigendurnir þurftu að flýja heimili sín í skyndi undan fellibylnum. Björgunarmenn náðu að opna búrið, sem þeir voru læstir inni í í tæka tíð. Það mátti varla tæpara standa, enda vatnið farið að ná upp á háls, svo þeir voru farnir að þurfa að standa á afturfótunum og skiljanlega orðnir frekar taugaveiklaðir eftir allan hamaganginn áður og síhækkandi vatnsyfirborðið.

Þeir voru heldur ekki lengi að taka sundtökin eftir að hliðið hafði loksins verið opnað fyrir þeim og áttu ekki í vandræðum með synda til fasts lands án hjálpar, enda eru hundar góðir sundgarpar.

Flestir hundar kunna sundtökin sæmilega og eru ágætis sjósundfélagar, svo lengi sem árstíminn er réttur og hitastig sjávar ekki of lágt. Flestir hundar hafa gaman af sundi og svamli, hvort sem er í vatni eða sjó, þó sumar tegundir njóti þess betur en aðrar. Það á þá helst við hunda sem notaðir eru til verka sem þarfnast þess að þeir komist yfir ár eða vötn til að smala fé, sækja bráð og slíkt.

Sumar tegundir, líkt og Labradorhundar eru bókstaflega með sundfit á milli tánna, enda mikið notaðir til að sækja bráð, stundum út í mið stöðuvötn. Feldur þeirra hrindir einnig frá sér vatni, svo þeir þola ágætlega veru í köldu vatni eða sjó í einhvern tíma, og hafa jafnvel gaman af því.

Það er hin fínasta skemmtun að fara með hundinum þínum í vatnið eða sjóinn, en miklu máli skiptir að aðstæður séu réttar og hundurinn í jafnvægi, sérstaklega í fyrstu skiptin. Það er ekkert sérstaklega gaman að synda við hlið 20 kílóa hunds sem reynir síðan allt í einu að klifra upp á þig í miðju sjósundi.