Hvar er hægt að fara í sjósund?

Sjósund er stundað um allt land, og í raun er hægt að skella sér í sjóinn hvar sem er ef búið er að skoða aðstæður vel, svo sem athuga sjávarstrauma, veður, hitastig og hreinleika sjávar. Það þarf svo að sjálfsögðu alltaf að fara öllu með gát, og best er að hafa ávallt einhvern með sér. Það getur nefnilega komið fyrir vönustu sjósundsmenn og konur að fá krampa, ofkælast eða missa andann tímabundið. Gott er að hafa í huga að vera alltaf búin(n) að borða fyrir sundið og öryggisatriði er að klæðast sundhettu eða húfu í áberandi lit svo hægt sé að sjá þig auðveldlega frá ströndinni.

Ef ætlunin er að fara í sjóinn á stað þar sem vitað er að engin búningsaðstaða er, er gott að vera í sundfötunum innanklæða og klæðast skóm sem mega blotna og er auðvelt að fara úr og í. Það er einnig mikilvægt, ef ekki bráðnauðsynlegt, að hafa tilbúna í bílnum hlýja peysu eða jafnvel slopp til að bregða yfir sig á eftir. Það er tilvalið að velja sér stað til sjósunds sem er nálægt sundlaug, svo stutt sé að fara til að skella sér beint í heitan pott á eftir.

Þó nánast sé hægt að komast í sjósund hvar sem er á landinu eru nokkrir staðir sem hafa orðið vinsælir, og líkur eru á að hitta þar aðra sem stunda sjósund.

Þekktasta aðstaðan er örugglega Ylströndin í Nauthólsvík, þar eru búningsklefar og heitur pottur sem gott er að liggja í eftir sjósundið. Grótta á Seltjarnarnesi er annað svæði á höfuðborgarsvæðinu sem er vinsælt til sjósunds, en vestast á Seltjarnarnesi er lítil fjara, þar sem er gott að baða sig í sjónum. Einnig má nefna staði við Klébergslaug á Kjalarnesi, við Jaðarbakkalaug á Akranesi, og vinsælt er meðal sundgarpa fyrir norðan að fara í sjóinn við flothöfnina við Hof á Akureyri.