Íslenskir sjósundskappar erlendis

Íslendingar eru ekki aðeins orðnir duglegri við að stunda sjósund hér á landi, fjölmargir hafa farið erlendis til að takast á við önnur sund. Sundkappinn Benedikt Hjartarsson hélt upp á það á dögunum að 10 ár væru liðin frá því að hann reyndi við Ermasundið í annað sinn, og náði yfir í þeirri tilraun, eftir 16 klukkstundir og 1 mínútu í sjónum.

Benedikt ætlar að sjálfsögðu að halda upp á afrekið með því að skella sér í sjóinn. Hann er því ekki óvanur, hefur alla tíð verið svamlandi í söltum sjó og þótti sumum hann vera stórfurðulegur hér áður fyrr, þegar sjósund var ekki jafn almennt og það er í dag. En Benedikt lét það aldrei á sig fá og hefur meðal annars lagst til sunds á flestum stöðum hér við land.

Hann hefur einnig lagt land undir fót og stundað sjósund erlendis. Hann hafði einu sinni áður reynt við sundið yfir Ermasund í tilefni fimmtugsafmælis síns, en þurfti frá að hverfa. Eftir að hafa sigrað Ermasundið í annarri tilraun, tók hann líka þátt í Alcatraz-sundinu árið 2012. Í Alcatraz sundinu er reynt að sleppa frá hinni alræmdu fangelsiseyju Alcatraz og í land, en sundið er um 2,4 kílómetrar.

Það getur verið erfitt fyrir marga vegna sterkra strauma og hugsanlegrar nálægðar við hákarla.

Benedikt er ekkert alltof sammála því, hann líkir sundinu í 14°C heitum sjónum við „skemmtiskokk í Reykjavíkurmaraþoninu“ og að það sé svo auðvelt og þægilegt að allir sem iðka sjósund ættu að prófa, og þá helst bara í sundskýlu og með sundgleraugu.

Í dag er Benedikt meira í því að miðla af reynslu sinni til annarra sjósundsgarpa. Hann hefði þó gaman af því að reyna við Gíbraltarsundið, Katalínu og sundin í Ástralíu. Þau sund krefjast þó þess að syntir séu 50 kílómetrar á viku til að undirbúa sig og í það hefur Benedikt ekki tíma eins og er.