Náttúrulegar laugar á Suðurlandi

Á Suðurlandi eru margar náttúrulegar og fornar laugar, sem sumar hafa fengið örlitla hjálp frá mönnum, aðrar eru algjörlega skapaðar af náttúrunni. Hér á eftir verða nefndar nokkrar af þeim áhugaverðustu.

Bláa lónið

Þarf vart að kynna fyrir neinum, hvorki íslendingum né útlendingum. Það er staðsett á Reykjanesskaganum og nýtur einstakra vinsælda sem náttúruperla er býr yfir miklum lækningamætti. Psoriasis- og exemsjúklingar hafa náð góðum árangri með því að bera á sig hvítleita leðjuna af botni og bökkum lónsins. Öll aðstaða var tekin í gegn fyrir um áratug og þar er nú þjónustumiðstöð og veitinga- og ráðstefnusalir auk fyrsta flokks ferðamannaþjónustu. Bláa lónið nýtur einnig þess vafasama heiðurs að vera dýrasti baðstaður landsins.

Vígðalaug

Er við Laugarvatn og er vatn hennar talið gætt yfirnáttúrulegum mætti og m.a. talið gott við augnverk. Áður fyrr var Vígðalaug mikið notuð við skírnir. Þessi laug er ekki stór, um 160 cm í þvermál og 30 cm djúp. Hún er hringlaga og hlaðin úr grjóti. Þó vatnið sé ekki djúpt sakar þó ekki að láta reyna á meintan lækningamátt laugarinnar og fá sér smá fótabað.

Hrunalaug

Er staðsett nokkrum kílómetrum fyrir utan Flúðir. Hún er blanda af fornu mannvirki og fallegri náttúruperlu og er staðsett í fallegu gili og grasi grónu umhverfi. Tvær laugar eru á staðnum og er önnur þeirra grjóthlaðin. Við hlið hennar er lítið hús með steyptum veggjum og gólfi, og bárujárnsþaki með torfi. Innandyra er að finna bekk til að leggja fötin frá sér. Baðaðstæður eru því nokkuð frumstæðar en upplifunin einstök.

Landmannalaugar

Náttúrulaugarnar Landmannalaugar liggja að Fjallabaki og eru einn þekktasti ferðamannastaður Íslands. Til að komast að þeim þarf að vera á góðum jeppa, því vegurinn er erfiður. 34° – 41°C heitar laugarnar eru mjög stórar og taka stóra hópa fólks. Vert er þó að hafa í huga að búningsaðstaða er engin, fyrir utan hreinlætisaðstöðu Ferðafélags Íslands. Áður fyrr var það siður að fólk baðaði sig nakið, en vert er að kynna sér betur aðstæður nú.