Ný jarðböð við Deildartunguhver

Ný aðstaða til jarðbaða var opnuð fyrir ekki svo löngu síðan, árið 2017, og er kölluð Krauma. Hún er að mörgu leyti sérstök fyrir þær sakir að hún stendur nánast við hliðina á vatnsmesta hver Evrópu, Deildartunguhver. Hverinn hefur um aldir verið nýttur til þvotta, baða og til að sjóða mat enda af nógu að taka, þar sem um 180 lítrar af bullsjóðandi vatni gusast úr honum á sekúndu.

Vatnið sem notað er í laugarnar hjá Kraumu er tært og hreint vatn, beint úr Deildartunguhver. Það er síðan kælt niður með vatni frá forna eldfjallinu Oki. Náttúrulindir staðarins eru eins og áður sagði allar nýbyggðar og 6 talsins. Ein er köld, aðeins um 6-8°C, en hinar eru vel heitar. Hjá Kraumu er engum sótthreinsandi efnum bætt í vatnið, heldur er notast við sírennslikerfi, sem tryggir að stöðugt streymi nýtt og ferskt vatn í laugarnar.

Krauma getur vel tekið á móti stórum hópum, en búningsklefarnir rúma um 100 manns. Einnig er veitingastaður á staðnum, sem tekur um 70 manns í sæti auk álíka stórs útisvæðis. Þar er gott að slaka á eftir að hafa virt fyrir sér Deildartunguhver og farið í laugarnar á eftir, en hverinn er alltaf jafn mikið sjónarspil að heimsækja, og fær til sín um 200.000 gesti á hverju ári. Við hverinn vex líka einstakt afbrigði burkna, sem kallaður er Tunguskollakambur. Hann er alfriðaður, enda finnst hann hvergi annars staðar í veröldinni.

Tvö gufuböð eru einnig á staðnum auk útisturtu. Gufuböðin eru sérstök að því leiti að hveravatn er notað til að úða undir timburbekkina í klefunum. Einnig er hægt að slaka vel á í svokölluðu hvíldarherbergi, en það er með góðum legubekkjum og hugljúfri tónlist ásamt alvöru arineldi.

Það er upplagt að leggja leið sína í Kraumu og náttúrulaugarnar þar, enda ekki langt að fara frá Reykjavík, aðeins um 97 kílómetrar og allt umhverfi lauganna einstakt.