Ný sjóböð opna á Húsavíkurhöfða

Ný sjóböð á Húsavíkurhöfða, rétt fyrir utan Húsavík, opnuðu formlega 31. ágúst síðastliðinn. Hugmyndin sjálf er ævagömul, en jarðhitinn við Húsavík hefur verið þekktur í mörg hundruð ár og notaður til baða og þvotta. Þegar boranir eftir heitu vatni hófust uppúr 1950 kom upp heitt vatn, sem reyndist síðar vera heitur sjór. Hann var of steinefnaríkur til að leggja inn í hús til upphitunar en til að nýta vatnið settu heimamenn upp gamalt ostakar, svo Húsvíkingar gætu baðað sig í heitum sjó þegar þá lysti.

Frá 2011 hófst undirbúningur fyrir gerð betri aðstöðu af hálfu félagsins Sjóböð ehf. Helstu hluthafar í fyrirtækinu eru: Tækifæri hf., Norðursigling, Baðfélag Mývatnssveitar, Orkuveita Húsavíkur og Dimmuborgir ehf. Framkvæmdir við verkið hófust í október í fyrra. Nú er allt svo til tilbúið, aðeins lítilsháttar frágangur á umhverfi eftir. Aðalbyggingin sjálf er að stærstum hluta niðurgrafin og fellur vel inn í fallegt umhverfið.

Gestir nýju baðanna geta því sem fyrr notið þess að baða sig upp úr sjó sem hitaður er með jarðvarma upp úr borholum, og á meðan virt fyrir sér stórbrotið útsýni yfir Skjálfandaflóa og Kinnarfjöll.

Þar er einnig hægt að slaka á í gufubaði og fá sér svo snæðing á nýjum og glæsilegum veitingastað sem er hannaður af Basalt Arkitektum. Einnig eru uppi hugmyndir, eftir fyrirspurnir frá mörgum, að setja líka upp pott með köldum sjó á næsta ári, fyrir þá sem þora.

Eitt skipti í sjóböðunum mun kosta 4.300 krónur, en einnig eru árskort í boði á mjög sanngjörnu verði. Fyrirtækið gerir ráð fyrir um það bil 40.000 gestum fyrsta árið, en undanfarin 2 ár hafa um 200.000 ferðamenn heimsótt Húsavík á hverju ári. Ekki er við öðru að búast en að einhver hluti þeirra, sem og heimamenn, verði tíðir gestir nýju sjóbaðanna, sem margir fullyrða að séu afskaplega heilandi og græðandi bæði fyrir sál og líkama.