Öryggi barna í sundi

Allir hafa gaman af því að leika sér í vatni. Og þó allir þurfi að hafa varann á og vera stöðugt á varðbergi nálægt vatni, sama hversu grunnt það er, gildir það sérstaklega þegar börn eiga í hlut. Það er nefnilega stundum ekki nóg að börn noti sundkúta og annan slíkan búnað, allt getur gerst. Og slysin geta verið ótrúlega fljót að gerast, eins og fjallað var um nýlega í grein DV, þar sem við lá að hræðilegt slys yrði.

Tvö börn eru að leika sér í grunnri, uppblásinni laug, þar sem lítið mál er að ná til botns. Móðirin stendur við bakkann og fer eftir smátíma að skoða símann sinn. Eitthvað hefur hún séð spennandi þar, því hún tekur ekki eftir því þegar annað barnið snýst á hvolf í hringkúti sínum og getur ekki reist höfuðið upp fyrir vatnsyfirborðið að sjálfsdáðum. Sem betur fer sýnir myndbandið einnig þegar móðirin loksins rankar við sér og stekkur til að bjarga barninu, en litlu mátti muna að illa færi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, minntist sérstaklega á atvik af þessu tagi í stefnuræðu sinni, þar sem hún gerði fréttir frá Þýskalandi að umtalsefni, en þar í landi hafa orðið óvenju mörg sorgleg slys, þar sem börn drukknuðu vegna þess að foreldrar þeirra voru uppteknir í símanum.

Það er gott að hafa í huga að börn sem eru ekki orðin 10 ára mega ekki fara ein í sund. Fylgdarmaðurinn verður að auki að verða orðin/n 15 ára og sá einstaklingur verður að vera syndur. Einn einstaklingur má ekki fylgja fleiri en tveimur börnum í einu.

Allir sundstaðir bjóða líka upp á sundkúta fyrir öll börn sem eru ekki orðin synd og gert er ráð fyrir að foreldrar setji slíka kúta á börn sín og fylgist vel með því að þeir sitji rétt og sinni hlutverki sínu. Eins og ofangreind grein minnir óþægilega vel á, er aldrei of varlega farið þegar öryggi barna er annars vegar.