Reykjadalur er einstök upplifun

Eitt af vinsælustu svæðunum til að heimsækja í grennd við Hveragerði hlýtur að vera Reykjadalur, sem er háhitasvæði rétt norður af Hveragerði. Vinsælt er að ganga upp að svæðinu, sem er ekki svo löng vegalengd, um 3 kílómetrar, og verðlauna sig svo með baði í heitri ánni.

Gönguleiðin upp að Reykjadal er gífurlega falleg og tekur aðeins um 40 mínútur. Gangan ætti að vera öllum fær sem eru í sæmilegu formi. Brattinn er aldrei mjög mikill og slóðin liggur stundum niður í mót líka. Á leiðinni að ánni er gengið framhjá mörgum gufustrókum og gutlandi volgum lækjum. Svæðið í kringum hverina er sérlega litríkt og hægt er að sjá nánast öll litbrigði bleiks, blás, græns, rauðs og guls vegna útfellingar frá hverunum.

Á sumrin er hægt að sjá afar fjölbreyttan gróður á leiðinni, sérstaklega er lúpína áberandi. (Hvort hún sé prýði og til gagns eða aðskotahlutur er svo álitamál). Þegar komið er að ánni er hægt að ganga meðfram henni í um 20 mínútur til að finna sér hitastig við hæfi. Áin hefur mismunandi hitastig eftir staðsetningu, því ofar sem farið er því heitari verður hún, og því neðar sem farið er kólnar hún. Það eiga því allir að geta fundið sitt fullkomna hitastig fyrir baðið. Leiðin til baka er engu síðri, því útsýnið er afskaplega fagurt.

Orkuveitan hefur gert svæðið aðgengilegt og öruggt (ef ekki er farið út fyrir merktar gönguleiðir) allt árið um kring með því að merkja göngustíga og setja upp skilti. Vinsældir svæðisins voru á tímabili orðnar svo miklar að loka þurfti svæðinu tímabundið og setja mann á vakt til að fylgjast með því að enginn færi inn á svæðið.

Ágangurinn og umferðin var orðin svo mikil ásamt tíðarfari að stígarnir urðu eitt forarsvað. Í kjölfarið byrjaði fólk að ganga á viðkvæmu svæðinu meðfram stígunum, og juku þannig enn á vandamálið. Ástandið er orðið mun betra nú og Reykjadalur er opinn á ný.