Saga Bláa lónsins, upphafið og staðan í dag

Saga Bláa lónsins hefst um það bil árið 1976, þegar lón myndaðist vegna starfsemi Hitaveitu Suðurnesja á svæðinu sem kallað er Svartsengi. Lónið myndaðist úr jarðhitavökva virkjunarinnar og fékk fljótlega nafnið bláa lónið, vegna fagurblás litarins. Fólk hóf að baða sig í vatninu kringum 1981 eftir að hafa uppgötvað hversu góð áhrif vatnið hafði á exem og psorisasis, sjúklingar með þessa þrálátu húðsjúkdóma fundu mikinn mun á sér eftir böðun, og lónið varð fljótt svo vinsælt til böðunar að Hitaveita Suðurnesja sá sér ekki fært annað en að setja upp bráðabirgðaaðstöðu strax sama ár. Formleg aðstaða til böðunar var svo opnuð árið 1987. Manngerða náttúruperlan Bláa lónið varð því til nánast fyrir algjöra slysni.

Fyrirtækið sjálft, Bláa Lónið hf. á sér sögu allt frá árinu 1992, sem var stofnár þess. Tveim árum síðar opnaði fyrirtækið göngudeild fyrir psoriasis og exemsjúklinga og um svipað leyti komu fyrstu vörurnar á markað, sem voru unnar úr jarðsjó lónsins. Jarðsjórinn inniheldur meðal annars steinefni og kísil, en það eru þá helst þörungarnir sem notaðir eru í vörum Bláa lónsins, sem hafa hvað mest áhrif.

Fyrirtækið hefur allt frá stofnun verið leiðandi í ferðamannaiðnaðinum og þróun húðvara og smyrsla úr einstöku vatni lónsins. Það hefur unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga jafnt í heilsu- sem ferðamannageiranum sem besta náttúrulega heilsulind í heimi, ótrúlegasti baðstaður í heimi, framúrskarandi húðvörur og meðferðarúrræði við psoriasis.

Í dag starfa um 90 manns hjá fyrirtækinu sem er þrískipt. Rekstur Bláa lónsins og viðhald, öflug þróun og markaðsetning á vörum fyrirtækisins, sem framleiðir í dag bæði vörur fyrir andlit og líkama, og svo rekstur heilsulindar þar sem hægt er að sækja meðferð við psoriasis.

Sérverslanir fyrirtækisins eru orðnar þrjár, ein í Reykjavík, ein í Bláa lóninu og ein í flugstöðinni, auk öflugrar netverslunar. Vörur þess er einnig hægt að nálgast hjá heilsulindinni Hreyfingu.