Sjósund getur verið allra meina bót, með góðum félagsskap og fallegri náttúru.

Hér á landi hafa ekki farið fram miklar rannsóknir um ágæti þess að synda í köldum, söltum sjó þó að iðkendum hafi fjölgað gífurlega. Það eru ekki allir sem láta sig hafa það að rífa sig upp á dæmigerðum íslenskum vetrarmorgni og dýfa sér í 1°C heitan sjó um miðjan vetur.

Það er þó eitthvað við hafið sem fær fólk til að stunda sjósund og sjóböð í öllum veðrum, allan ársins hring. Sumir tala um nándina við sjóinn og náttúruna, aðrir um kuldann og vellíðunartilfinninguna.

Skiptin milli ískulda og mikils hita skila aukinni hreyfingu blóðsins, sérstaklega um sogæðakerfið. Líkaminn virðist einnig framleiða meira noradrenalín, hamingjuhormónið, á meðan og eftir að hafa upplifað mikinn kulda. Sumir segja að regluleg sjóböð lini þráláta verki þeirra.

Allri hreyfingu fylgir alltaf einhver áhætta, og það gildir einnig um sjósund.

Hér á landi er það aðallega kuldinn og veðrið, en ekki hákarlar og aðrar skepnur sem þarf að vara sig á. Passa þarf að þekkja sundstaðinn vel, vera búin(n) að athuga veðurspá, sjólag, hitastig sjávar og sjávarstrauma áður en farið er út í.

Fáðu þér að borða áður en þú leggst til sunds, tómur magi og sjósund fara ekki vel saman. Svo er um að gera að flýta sér hægt, fara rólega ofan í og eingöngu þar sem nógu grunnt er, rétt á meðan líkaminn er að venjast breytingunni, því þetta getur verið töluvert áfall fyrir líkamann fyrstu mínútuna. Það má alveg búast við einhverjum andköfum og einstaka skrækjum fyrstu 30 sekúndurnar. Því skaltu aldrei fara dýpra út í fyrr en öndunin er orðin eðlileg aftur.

Þú þekkir þinn líkama best, og veist hvað hann þolir. Hann á eftir að vera alsæll eftir sjósprettinn í heita pottinum.

Hafðu svo alltaf einhvern vanan sjósundgarp með þér, sérstaklega ef þú hefur enn ekki mikla reynslu af sjósundi. Ekki einungis af því að það er svo miklu skemmtilegra, það skiptir svo miklu máli upp á öryggið.