Sjósund og þungarokk á Eistnaflugi

4 daga rokkhátíðin Eistnaflug var haldin í 14. sinn í júlí síðastliðnum á Neskaupstað í Norðfiðri, en hún er haldin árlega, alltaf aðra helgi júlímánaðar. Það voru þó ekki bara tónleikar í boði, heldur var líka hægt að skella sér í sjósund.

Hátíðin var fjölmenn í ár enda var veðrið með besta móti, blíðskaparveður, sól og hiti, sérstaklega síðasta dag hátíðarinnar. Það er ansi sérstakt fyrir íbúa bæjarins, sem eru tæplega 1.500 talsins, að fá til viðbótar 1.500 gesti alls staðar að úr heiminum í heimsókn á þessum stutta tíma. Hún hefur að minnsta kosti farið langan veg frá því hún var fyrst haldin, en þá stóð hátíðin yfir í einn dag. Í dag má búast við að sjá um 30 – 40 hljómsveitir á hverri hátíð, flestar frá Íslandi.

Sjósundið hefur verið reynt áður við góðar undirtektir enda er sjórinn ekki svo kaldur um miðjan júlí, og einmitt gott að kæla sig vel niður eftir sveitta tónleika. Sjósund er reyndar ekki með öllu óþekkt í Neskaupstað, en hefð er fyrir því að halda sundlaugarpartý og fara í sjósund á sjálfan Sjómannadaginn, ásamt því að halda dorgveiðikeppni á höfninni og stunda meðal annars hópsiglingar. Það er ef til vill vel skiljanlegt, þegar tekið er tillit til þess að þessi litli bær byggir afkomu sína á fiskveiðum og fiskvinnslu.

Formlegt Sjósundfélag Norðfirðinga, eða SJÓN var einmitt stofnað við Kajak húsið í Neskaupstað í febrúarmánuði árið 2011. Það er eftir því sem best er vitað enn starfandi. Félagið hélt upp á mánaðarafmæli sitt í marsmánuði með því að 7 félagar stungu sér til sunds fyrir neðan kirkjuna á Neskaupstað. Það vakti mikla athygli bæjarbúa og aukinn áhuga á sjósundi og skipulögðum sjósundferðum. Í þann stutta tíma sem sundið stóð yfir var lofthiti -5°C og sjávarhiti (sem fæst þó ekki alveg staðfestur) var sagður vera -0,5°C.