Starfandi sjósundfélög á Íslandi

Nú þegar eru starfandi nokkur félög um sjósund, það stærsta og elsta er án efa Sjósundfélag Íslands. Félagið heldur úti heimasíðu þar sem hægt er að nálgast ýmis konar fróðleik um sjósund, búnað, helstu staði og margt fleira.

Markmið félagsins eru skýr, en það er að efla áhuga landsmanna á sjósundi við Ísland, hvort sem það er þreksund úti á hafi eða stutt sund meðfram ströndinni, hjálpa og aðstoða nýja iðkendur og upplýsa og rannsaka heilsusamleg gildi sjósunds. Sjósundfélag Íslands vinnur einnig að því að setja upp og betrumbæta aðstöðu sem víðast, og skipuleggja sjósundferðir fyrir hópa við öruggar aðstæður, þar sem reyndir sjósundfélagar og björgunarbátar eru með í för.

Félagið stefnir líka að því að skrásetja þreksund, hvort sem það eru lengri eða styttri ferðir og safna upplýsingum um gömul sjósund sem ný og gefa út sögu sjósunds við Íslandsstrendur.

Félagið vill ennfremur rannsaka og mæla viðbrögð líkamans við mismunandi hita sjávar, sér í lagi í tengslum við forvarnir og læknisfræðileg gildi sjósunds, og hvernig sjósund hefur áhrif á almennt heilsufar, til dæmis hvaða áhrif sjósund hefur á ónæmiskerfið.

Félagið hefur í gegnum árin staðið fyrir ýmsum viðburðum, svo sem boðsundi frá Ægissíðu yfir til Bessastaða, Nýárssundi og Reykjavíkursundi, þar sem synt var frá höfn Seltjarnarness, Bakkavör, og yfir í botn Fossvogsdals. Vegalengdin er um 6 kílómetrar og tók sundið 3 klukkustundir og 18 mínútur.

Önnur sjósundsfélög eru til dæmis Sjósund- og Sjóbaðsfélag Reykjavíkur, Sjóbaðsfélag Akraness og Sjósundfélag Akureyrar. Öll þessi félög er hægt að finna á Facebook og sum hafa jafnvel heimasíðu. Þar er hægt að finna allskonar upplýsingar og fróðleik, til dæmis hvenær félagsmenn hittast til að fara að synda. Mörg þessara félaga bjóða byrjendum að slást með í för fyrir fyrstu sjósundferðina.

Fyrir þá sem synda í Reykjavík er einnig komið út nýtt Sjósunds-app. Þar er hægt að sjá upplýsingar um lofthita, sjávarhita, og vindhraða þá stundina í Nauthólsvík.