Streitulosandi sund

Náttúrulækningafélag Íslands, NLFÍ, er þessa dagana að minna fólk á námskeið sín, en um er að ræða 4 vikna námskeið í streitumeðferð. Þar gefst fólki tækifæri til að skrá sig á 4 vikna námskeið í lokuðum hópum með um 12 til 16 öðrum þátttakendum.

Á námskeiðinu er farið yfir andlega þætti sem valda streitu, svo sem þegar kaflaskipti verða í lífi fólks. Margar ástæður eru fyrir kvíða og stressi. Fólk hverfur af vinnumarkaði, tekur á sig of mörg verkefni í einu, hættir í samböndum eða verður fyrir einhvers konar áfalli. Farið er nákvæmlega yfir með hverjum og einum hverjir eru orsakavaldar streitunnar og kynntar leiðir til að takast á við stressið.

Aðspurð um aðra hluti sem kenndir eru á námskeiðinu talar Margrét Grímsdóttir, stjórnandi námskeiðanna, einnig um mikilvægi þess að gera upp fortíðina á jákvæðan hátt, og setja sér raunhæf markmið í lífinu, ætla sér ekki um of. Starfsfólkið sem kemur að námskeiðinu er allt fagmenntað, til dæmis læknar, hjúkrunarfólk, sjúkraþjálfarar og sálfræðingar.

Einnig er farið vel yfir allt sem snýr að líkamlegum þáttum, og góð fræðsla gefin um hollt og gott mataræði og hreyfingu úti í náttúrunni, svo sem göngur, líkamsrækt og fleira. Þar kemur sund og sundferðir mikið við sögu, enda vita flestir sem stunda sund hversu þægilegt það er að slaka á í heitum potti eftir góðan sundsprett í lauginni.

Fátt er jafn mikilvægt og að stunda einhverja hreyfingu. Sund er því áberandi á námskeiðinu, en sund getur haft jákvæð áhrif á vöðvabólgu og aðra verki, þunglyndi, kvíða og neikvæðar hugsanir.

Nútímasamfélag getur verið streituvaldur, og þó sumir haldi því fram að tæknin hafi gert líf okkar auðveldara og að sama skapi minnkað streituvalda, eru ekki allir sammála og telja að tölvunotkun og snjallsímar hafi þvert á móti aukið á stressið og álagið.

En þá er gott að geta skellt sér í sund og láta stressið leka af sér í leiðinni.