Sýnishorn af sundlaugum Suðurlands

Sundlaugar á Suðurlandi eiga það flestar sameiginlegt að vera opnar alla daga, allan ársins hring. Hér á eftir eru aðeins nokkrar nefndar af þeim sem eru innan við klukkutíma akstur frá Reykjavík.

Sundlaugin Þorlákshöfn

Býður upp á 25 metra útilaug og innivaðlaug. Þar er einnig vatnsrennibraut og tveir heitir pottar. Fjölda leiktækja er að finna fyrir yngri kynslóðina auk rennibrautarinnar, til dæmis vatnsorm, svepp og margt fleira. Sundleikfimi og sundnámskeið eru einnig í boði.

Sundlaugin í Laugarskarði

Er staðsett á fallegum útsýnisstað í Hveragerði og er ein af elstu laugum landsins. Laugin er hituð upp með jarðgufu, sem nóg er af í Hveragerði, og er gegnumstreymislaug.

Fyrsti áfangi, 25 metra löng útilaug var tekin í notkun árið 1936, og var á þeim tíma langstærsta sundlaug Íslands. Hér æfði landslið Íslands í sundi lengi vel, alveg þar til Laugardalslaug var tekin í notkun árið 1966. Þar er einnig að finna grunna setlaug, heitan pott með rafmagnsnuddi og gufubað frá náttúrunnar hendi.

Íþróttafélagið Hamar starfrækir heilsuræktaraðstöðu í sundlauginni með vel búnum lyftingasal og öðrum alhliða sal, sem nýtist fyrir yogatíma, spinning, leikfimi og margt fleira.

Sundhöllin Selfossi

Er nánast í miðbæ Selfoss og býður upp á gott aðgengi. Hún er ein af eldri sundhöllum landsins en byggt var við hana árið 2015 og öll aðstaða endurbætt. Þar er að finna barnalaug, 18 metra innilaug, 25 metra útilaug og útibarnalaug með þremur rennibrautum. Gufubað, sauna og úrval heitra og kaldra potta eru einnig á staðnum.

World Class líkamsræktarstöð er starfrækt á efri hæðinni og nýtir sameiginlega afgreiðslu með sundlauginni.

Sundlaugin Stokkseyri

Í vinalega þorpinu Stokkseyri er að finna litla og notalega sundlaug, 18 metra langa. Þar er einnig að finna vaðlaug, rennibraut og tvo heita potta. Ef vel liggur á starfsfólki er aldrei að vita nema boðið sé upp á rjúkandi kaffibolla eða svalandi djús í pottinn.